6.2.2014 | 16:09 | mbl.is‏
Vilja rannsaka Auschwitz-vörð

Simon Wiesenthal-stofnunin biðlaði í gær til yfirvalda í Króatíu um að hraða rannsókn á máli níræðs karlmanns sem grunaður er um stórfellda stríðsglæpi er hann var fangavörður í nokkrum fangabúðum nasista í heimstyrjöldinni síðari, þeirra á meðal hinum illræmdu Auschwitz-búðum.

Rannsókn á máli mannsins, sem heitir Jakob Frank Dencinger, hófst í síðustu viku og hafa þýsk og bandarísk yfirvöld, auk Wiesenthal-stofnunarinnar, beðið króatísk yfirvöld um skjöl sem tengjast Dencinger.

Hann var í Waffen-SS, sem var hernaðararmur SS-sveitanna, öryggissveita þýska nasistaflokksins, og síðar vörður í Auschwitz-Birkenau-útrýmingarbúðunum þar sem um ein milljón gyðinga lét lífið á árunum 1940 til 1945.

Eftir stríðið fór hann til Bandaríkjanna, fékk þar ríkisborgarétt og var þar búsettur til ársins 1989 þegar hann var sviptur ríkisborgararéttinum vegna gruns um fortíð hans í nasistaflokknum. Þá sneri hann aftur til heimalands síns, Króatíu.

Efraim Zuroff, sem er helsti nasistaveiðari Wiesenthal-stofnunarinnar, segir að þeir sem störfuðu sem fangaverðir í „stærstu fjöldamorðsverksmiðju sögunnar“ eigi ekki skilið sérstaka samúð vegna hás aldurs eða heilsuleysis.

„Það sem skiptir máli er að fórnarlömb á þessum hræðilegu stöðum eiga skilið að hvorki sé litið framhjá þeim sem áttu aðild að þessum glæpum né séu þeir hunsaðir,“ segir Zuroff.

mbl.is